Hér verður einungis stikklað á stóru varðandi upphaf og þróun
Fríkirkjunnar Kefas. Vonandi verður einhverntímann síðar hægt
að gera þessari sögu betri skil því hún er einkar athyglisverð
og á köflum næsta ótrúleg.
Tildrög stofnunar kirkjunnar voru þau að um nokkurt skeið
hafði fámennur hópur fólks hist sem bæna- og Biblíuleshópur í heimahúsi.
Ætlun þessa hóps var ekki að verða að eða stofna kirkju þó að
sú hafi orðið raunin.
Stækkaði hópurinn með tíð og tíma og kom að því að hann varð
of stór til vistunar í heimahúsi. Var þá hafin leit að heppilegu
húsnæði undir hópinn og starfsemi hans, sem sífellt varð umsvifameiri.
Fljótlega kom svo að þeim tímamótum að kjarni þessa hóps ákvað
að stofna kirkju formlega og varð Kefas, kristið samfélag til þann
18. janúar 1992 í Ólafsvík þar sem hjón innan hópsins bjuggu.
Frá og með mars 1992 fram í apríl 1993 var Kefas með starfsemi
sína í veglegum bílskúr hjóna í Kópavoginum og undi þar vel sínum hag.
Fluttist Kefas svo til Garðabæjar í hálft ár þar sem kirkjan
fékk inni einn dag í viku í húsnæði hjá öðrum kristnum söfnuði.
Í september 1993 flutti Kefas svo aðsetur sitt að Dalvegi 24
í Kópavoginum þar sem kirkjan starfaði samfleytt í 8 ár.
Árið 2000 hófst svo mikið átak hjá kirkjunni þar sem hafist var
handa við að byggja eigið húsnæði undir alla starfsemi kirkjunnar
að Vatnsendabletti 601 við Vatnsendaveg. Var svo flutt inn í það
húsnæði haustið 2001 og nafni kirkjunnar breytt í Fríkirkjan Kefas.