Minningarsjóðurinn

Það er okkur heiður og ánægja að geta sagt frá því að fyrir síðustu jólahátíð
gátum við aðstoðað 26 einstaklinga eða fjölskyldur með gjafakortum í
verslunum Krónunnar sem minningarsjóður Árna Kr. Hanssonar greiddi
fyrir að mestu. Kaupás styrkti okkur líkt og undanfarin ár og nú með
gjafakortum að andvirði kr. 50.000 og hluti af ágóða okkar árlega jólabasars
rann einnig til þessa verkefnis. Okkar markmið er sjóðurinn geti haldið
áfram að aðstoða fólk sem þarf á hjálp að halda.

Um minningarsjóð Árna Kr. Hanssonar:
Kirkjan hefur árum saman starfrækt líknar- og minningarsjóð sem hefur
það að markmiði að aðstoða þá sem minna mega sín. Árið 2006 var sjóðurinn
nefndur eftir Árna Kr. Hanssyni sem lést það ár, 99 ára að aldri.
Árni var elsti safnaðarmeðlimur kirkjunnar og hafði verið þátttakandi í
starfi hennar frá upphafi. Árni var hverjum manni góð fyrirmynd, átti ljúft
og glaðlegt geð, væntumþykju til allra manna og óbilandi trú á Drottin sinn.
Sjóðurinn starfar nú í hans minningu.

Fjármagn sjóðsins fæst einkum í gegnum kaup fólks á fallegum minningar- og
samúðarkortum sem kirkjan á. Hægt er að hafa samband við Björgu á
skrifstofu kirkjunnar sem útbýr minningarkortin og sendir þau til viðtakanda.

Sú aðstoð sem sjóðurinn hefur veitt hefur einkum verið fólgin í
matargjöfum til fólks fyrir jólahátíðina. Eins og segir efst á síðunni gátum
við aðstoðað fjölda fjölskyldna síðastliðin jól með gjafabréfum
í matvöruverslanir. Auk þess er gaman að minnast á það að Kaupás hefur nú í
nokkur ár styrkt kirkjuna um gjafabréf sem við höfum svo gefið frá okkur og
þannig veitt kirkjunni aðstoð við að aðstoða aðra.